Færsluflokkur: Menntun og skóli

Eiturlyf

  Það er sorgleg staðreynd hvað eiturlyfjasjúklingum fjölgar mikið. Að ungar mæður deyi frá börnum sínum og að feður hverfi einnig frá ungum börnum yfir móðuna miklu. Hvers vegna er ekki meira gert bæði í forvörnum og hvers vegna er ekki meira gert til að búa þeim er starfrækja meðferðarstofnanir betur kleift að sinna sínu starfi. Tollgæslan á í vandræðum með að hefta innflutning á eiturlyfjum og lögregluyfirvöldum er þröngt skorinn stakkurinn fjárhagslega. Hvern þarf að undra þótt ástandið sé eins og það er. Það eru margir sem eiga um sárt að binda og ef rétt er (og hef ég ekki ástæðu til þess að efast um) að margir látist í viku hverri af of stórum skömmtum þá er illa komið fyrir okkur  í þessu svokallaða velferðarþjóðfélagi. Ég skora enn og aftur á ráðamenn að bregðast við og veita meira fjármagni í þennan málaflokk. Hvað varð um milljarðinn sem Framsóknarflokkurinn lofaði um árið?

 

(Framsókn hvað)


Hver á að skammast sín!

  Það er yndislegt lífið hjá fötluðum á sambýlum. Loksins núna getur þetta fólk farið í veslunarferðir og valið sér þvottavélar, brauðristar og eldavélar með meiru. Geta kannski keypt Miele í allt eldhúsið. Ríkisstjórnin er búin að gera svo góða hluti fyrir þetta fólk að það lifir í vellystingum og þá er  sjálfsagt að það kaupi það sem vantar í heimilishaldið. Þetta eru mikil öfugmæli og kannski halda sumir að þetta sé svona. Hver einstaklingur fær ca. 125,000 kr á mánuði og þarf engan reikningshaus til að sjá að þessir peningar nægja ekki til að hver einstaklingur geti lifað sómasamlegu lífi með fullri reisn. Og sjá! nú á vistfólk að taka þátt í að kaupa eldhústæki, þar fóru allar gjafirnar frá ríkisstjórninni á einu bretti. Þessi hugmynd er þvílík hneisa að menn ættu að skammast sín.

 

(og hana nú)


Rónar

  Það er engum ætlað við fæðingu að verða götunni að bráð og ekki ákveður unglingur að hann vilji verða róni síðar á lífsleiðinni. Í gær komu fram skrítnar fullyrðingar hér á blogginu um að þeir sem flokkast undir það að teljast götunnar fólk kysu það og því væri raunar ekki viðbjargandi. Það kom líka fram að ef bætur væru hækkaðar hjá þessum hópi  myndi  neyslan bara aukast. Það kann að vera en ég spyr hvort réttur þessara einstaklinga sé ekki sá sami og okkar hinna. Og til að koma í veg fyrir misskilning þá græðir enginn fjárhagslega á að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi og á það við um allar vinnandi hendur í þessum geira. Það kunna að vera einhverjir sem sjá sér hag í að auglýsa sig gefandi ölmusu en það er mitt álit að það sé ekkert annað en helber hræsni þar á ferð og ættu viðkomandi að skammast sín. Verulegur árangur hefur náðst í að hjálpa mörgu af þessu götufólki í gegnum langtímameðferð hjá viðurkendum meðferðaraðilum og ber að hækka þar fjárframlög til frekari sigra. En vandamálið er að fleiri og fleiri lenda í óprúttnum eiturlyfjasölum og þá er erfið leið framundan. Ríkið er helsti eiturlyfjasalinn því áfengið brýtur fleiri niður en allt annað samanlagt og er því engin furða að alltaf bætast nýir einstaklingar í hóp götufólks. Vandamálið er ekki þetta veika fólk heldur við hin  sem drögum fólk í dilka. Allt á að gera fyrir suma sjúklinga meðan aðrir skipta minna máli.

(hva!)


Litla-hraun

  Gott var og gaman að heyra í fréttum að komin væri áfengismeðferð á Litla-hrauni. Greinilegur árangur er af þessu verkefni en samt er alltaf  sama uppi á teningnum í þessum málaflokki- það vantar fjármagn. Nú er nauðsynlegt að ráða meðferðarfulltrúa á staðinn en það vantar peninga. Ég er viss um að SÁÁ, Samhjálp og fleiri meðferðarstofnanir gætu komið þarna að með samningi við fangelsismálastofnun og fengju þá þessir menn rétta meðhöndlun. Á Litla-hrauni starfar gott fólk sem gerir sitt besta en fagleg hjálp þarf að koma þarna að og þar gætu áðurnefnd samtök komið inn í. Það er sorglegt hversu mikið af fíkniefnum kemst inn á Hraunið og skilur almenningur ekki hvernig það má vera því þetta er lokað og afgirt svæði. Einhverjar leiðir eru samt opnar og þarf að loka þeim. Fangar sem eiga að heita í betrunarvist eiga enga framtíðarmöguleika komi þeir úr fangelsi jafn dópaðir og þegar þeir komu inn. En það eru ekki allir sömu sökinni seldir því margir fangar eru ekki fíklar. Ef þessi tilraun fangelsismálastofnunar á að ganga upp þarf að veita nægu fjármagni í áframhaldandi verkefni þar af lútandi. Ef vel er haldið á spöðunum þá skilar þetta betri einstaklingum út í samfélagið og sparar um leið gífurlegar upphæðir.

 

(jamm)


Bloggið

  Ég er sammála þeim sem vilja að nafnleysingjarnir hverfi af blogginu. Í skjóli nafnleyndarinnar fremja sumir skefjalausar árásir á ákveðnar persónur og svívirðingar út í allt og alla. Við þurfum ekki á þessu að halda því bloggið á að vera heiðarlegt en gagnrýnið. Flestir vilja geta tjáð sig án þess að verða fyrir árásum frá einhverjum vitgrönnum nafnleysingjum. 

Annað mál sem mig langar til að nefna er að sumir bloggarar virðast apa allt beint upp eftir fréttum og skrifa nánast orð fyrir orð sem þar kemur fram. Er ekki bara hægt að lesa Moggann? Oft er þetta fólk sem oft bloggar og ég furða mig á hver tilgangurinn er?

 

(veit ekki)


Áfengisaulýsingar

Það kann að vera helber miskilningur í mér að bannað sé að auglýsa áfengi opinberlega á Íslandi.Mig mynnir að hafa heyrt mikla umfjöllun um þessi mál fyrir nokkrum misserum og skyldist þá að þetta væri alfarið bannað. Innflytjendur virðast koma sér hjá ávirðingum með að kalla sínar auglýsingar "kynningar" og nota þar blöð á við Hún og Hann sem er fríblað og er að finna á stöndum að minnstakosti í Hagkaupum. Í þessu blaði er allt morandi í áfengisauglýsingum og greinilega í kynningarstíl til að forðast Íslensk lög. Ef lögin eru óljós á þessu sviði þarf að bæta þar úr. Þegar svona myndir birtast á heilsíðu í glanstímaritum þá síast inn í huga unga fólksins að það sé ekkert eðlilegra en að neyta þessara vara og þá situr gróðinn eftir hjá innflytjandanum en sorgin hjá fjölskyldunum eftir að heimilislífið er farið úr skorðum. Ég hvet alla sem hafa með þetta að gera, að kippa þessu í liðinn. Fólk vill að Ísland sé laust við mengun og þráum við flest að allt sé hreint og fínt í kringum okkur, en áfengismengunin er ekki síður ógn við þjóðfélagið. Við höfum ekki efni á að missa hæfileikaríkt ungt fólk á vit Bakkusar og verðum að gera allt sem í okkar valdi er til að stöðva það.

Ja hér.


Bjartsýni

  Nú er best að vera á jákvæðu nótunum og vera bjartsýnn fyrir hönd okkar allra og vona það besta. Við lifum á tímum sem eru ekki eins og við vildum hafa það en Íslendigar hafa ávallt verið bjartsýnir og sagt "þetta reddast". Ég er viss um að þetta reddast líka núna miðað við hamaganginn í stjórn og stjórnarandstöðu og ekki sé talað um alla ráðgjafana og þotuliðið. Nei við þurfum ekkert að óttast því ráðamenn okkar hafa farið í fjarlæg lönd til að sannfæra heiminn um hvað við erum klár hér upp á klakanum. Það væri því fáránlegt að ætla að íslenska þjóðarbúið stefndi í þrot. Við kunnum allt og getum allt. Um það er ég sannfærður.

(úps)


Lög og reglur

  Björn Bjarnasonn kom með pistil á blogginu og viðurkenndi að Ísland væri opið fyrir glæpamönnum frá Póllandi og fleiri löndum og var það vegna laga og reglna hér á landi. Hann sagði að lögreglan vissi af mörgum sem hér væru en gæti ekkert gert vegna framsalsvitleysu hér á landi. Og ég spyr Björn! Er það ekki ykkar stjórmálamannana að bæta úr þessu rugli áður en Ísland verði miðstöð glæpamanna í heiminum?

(jáJá)


Áfengisneysla barna.

  Það er skelfilegt það sem ég las í "24 stundum" um árshátíð hjá Mac Donalds. Móðir sagði að fimmtán ára börn hefðu fengið afgreitt áfengi á barnum. 70% starfsfólks hefði verið undir lögaldri og kemur því á óvart að að það skyldi vera veitt vín á staðnum. Ef fimmtán ára barn byrjar að drekka áfengi getur það haft hroðalegar afleiðingar seinna á lífsleiðinni. Þetta er ekki einsdæmi því maður heyrir af og til að svona sé veisluhöldum fyrirtækja háttað og þá er ekki mikið verið að pæla í því hvort einhver er undir lögaldri. Hættan er sú að ef fimmtán ára barn fær áfengi í fyrsta sinn er ekki ólíklegt að að sú manneskja haldi áfram að drekka og missi jafnvel tökin á drykkjunni.Hvernig verður framtíð viðkomandi þá.svo ekki sé minnst á eiturlyfin sem oft koma í framhaldi þegar viðkomandi er í stjórnlausri áfengisdrykkju?. Við verðum að vernda börnin okkar og stöðva svona samkomur.

Svo er nú það


Bílslys

  Það er hræðilegt að heyra í fréttum um tvö umferðarslys bæði á Kjalarnesi og Reykjanesbraut. Þetta ýtir undir kröfuna um að allir vegir sem liggja að höfuðborginni eigi að vera tvöfaldir. Það má koma í veg fyrrir svona voðalega atburði með átaki í vegamálum. Sundabraut er stanslaust í umræðunni og virðast menn ekki getað tekið ákvarðanir og benda bara hver á annan. Ef einhver fær góða hugmynd um legu Sundabrautar þá eru pólitískir andstæðingar á móti sama hversu góð tillagan er Sem leiðir af sér frestun framkvæmda æ ofan í æ. Þetta er ekki heilbrigt.

Það er nú það.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband