Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Rónar

  Það er engum ætlað við fæðingu að verða götunni að bráð og ekki ákveður unglingur að hann vilji verða róni síðar á lífsleiðinni. Í gær komu fram skrítnar fullyrðingar hér á blogginu um að þeir sem flokkast undir það að teljast götunnar fólk kysu það og því væri raunar ekki viðbjargandi. Það kom líka fram að ef bætur væru hækkaðar hjá þessum hópi  myndi  neyslan bara aukast. Það kann að vera en ég spyr hvort réttur þessara einstaklinga sé ekki sá sami og okkar hinna. Og til að koma í veg fyrir misskilning þá græðir enginn fjárhagslega á að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi og á það við um allar vinnandi hendur í þessum geira. Það kunna að vera einhverjir sem sjá sér hag í að auglýsa sig gefandi ölmusu en það er mitt álit að það sé ekkert annað en helber hræsni þar á ferð og ættu viðkomandi að skammast sín. Verulegur árangur hefur náðst í að hjálpa mörgu af þessu götufólki í gegnum langtímameðferð hjá viðurkendum meðferðaraðilum og ber að hækka þar fjárframlög til frekari sigra. En vandamálið er að fleiri og fleiri lenda í óprúttnum eiturlyfjasölum og þá er erfið leið framundan. Ríkið er helsti eiturlyfjasalinn því áfengið brýtur fleiri niður en allt annað samanlagt og er því engin furða að alltaf bætast nýir einstaklingar í hóp götufólks. Vandamálið er ekki þetta veika fólk heldur við hin  sem drögum fólk í dilka. Allt á að gera fyrir suma sjúklinga meðan aðrir skipta minna máli.

(hva!)


Áfengisgríman

  Hvað er áfengi í augum almennings? Margir sjá í hillingum bjórauglýsingarnar sem eru reyndar bannaðar og vínkynningarnar í flestum blöðum sem hér eru gefin út. Fólki finnst sjálfsagt og jafnvel ómissandi á árshátíðum og öðrum skemmtunum að áfengi sé haft um hönd enda fátítt að annað sé upp á teningnum. Í opinberum veislum sjást menn lyfta glösum og þykir það ekkert sjálfsagðara. Fyrst allir eru svona ánægðir og brosa út að eyrum hvað er ég þá að fárast yfir þessu? Jú skuggahliðar drykkjunnar sjást ekki í blöðunum eða sjónvarpinu þegar glansmyndir Bakkusar eru sýndar. Það er varla sú fjölskylda til á Íslandi sem ekki hefur þurft að líða vegna drykkju einhvers nákomins. Það er heldur ekki til sú árshátíð eða veisla þar sem áfengi er veitt að ekki komi upp vandamál vegna einhvers einstaklings sem hefur drukkið einum of mikið og svo ekki sé minnst á vandamálin heima hjá mörgum eftir svona veislur. Svo henda menn gaman að í vinnunni daginn eftir og tala um "Jón eða Gunnu sem dönsuðu uppi á borði ofurölvi. Þau mættu ekki í vinnuna þennan dag." Grámygla hversdagsins tekur svo við og þá eru einhverjir sem geta ekki horfst í augu við lífið og þá er auðvelt að leita í flöskuna. Það er því miður svo margir sem eru að gera út af við fjölskyldur sínar en á yfirborðinu virðist ekkert athugavert enda er allt falið með stórri grímu. En gríman fellur að lokum og þá er alkohólistinn berskjaldaður og nánustu aðstandendur komnir í þrot. Og ef einstaklingnum ber gæfa til þá fer hann í meðferð og koma þá hjálparsamtök eins og Samhjálp, SÁÁ og fleiri að góðum notum. En ekki má gleyma aðstandendunum því þeir vita ekki í þennan heim né annan og eru ráðþrota. Það er reynt eftir megni að hjálpa þessum einstaklingum en þeir verða oft útundan. Hvað hafa flottar auglýsingar með fallegu frísku fólki drekkandi ljúfan áfengan drykk að segja?. Jú komið og gangið glötunarveginn með okkur.

 

(vá)


Rakvélablöð

  Þeir sem fara inn í verslanir Lyfju verða áþreifanlega varir við gríðarlega hátt verð á öllum smávörum sem þar er að finna. Hvernig er hægt að borga vel á annað þúsund króna fyrir fjögur rakvélarblöð, mér er það alveg óskiljanlegt? Álagningin er fáránleg á öllum hlutum. Svo kemur í ljós að öryrkjar fá engan afslátt þarna af lausasölulyfjum sem þeir þó þurfa oft að nota í einhverjum mæli. Hvernig má það vera að sum önnur apótek gefa öryrkjum 5 til 10% afslátt og eru einnig með minni álagningu á vörum sínum. Er þetta vegna fákeppni? Kannski!. Þess má geta að Lyf og heilsa er einnig með háa álagningu á sínum vörum og eru rakvélablöðin síst ódýrari þar og þannig er það á fleiri stöðum. Þegar stórar einingar myndast á þessum markaði er ávallt talað um að það sé neitandanum til hagsbóta, en er það raunin? Rimaapótek er með eitt lægsta verðið á öllum vörum og er það þó einkarekið og ekki hluti að stóru keðjunum. Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér? Þarf ég að láta mér vaxa skegg?

 

(Ja hér.)


Litla-hraun

  Gott var og gaman að heyra í fréttum að komin væri áfengismeðferð á Litla-hrauni. Greinilegur árangur er af þessu verkefni en samt er alltaf  sama uppi á teningnum í þessum málaflokki- það vantar fjármagn. Nú er nauðsynlegt að ráða meðferðarfulltrúa á staðinn en það vantar peninga. Ég er viss um að SÁÁ, Samhjálp og fleiri meðferðarstofnanir gætu komið þarna að með samningi við fangelsismálastofnun og fengju þá þessir menn rétta meðhöndlun. Á Litla-hrauni starfar gott fólk sem gerir sitt besta en fagleg hjálp þarf að koma þarna að og þar gætu áðurnefnd samtök komið inn í. Það er sorglegt hversu mikið af fíkniefnum kemst inn á Hraunið og skilur almenningur ekki hvernig það má vera því þetta er lokað og afgirt svæði. Einhverjar leiðir eru samt opnar og þarf að loka þeim. Fangar sem eiga að heita í betrunarvist eiga enga framtíðarmöguleika komi þeir úr fangelsi jafn dópaðir og þegar þeir komu inn. En það eru ekki allir sömu sökinni seldir því margir fangar eru ekki fíklar. Ef þessi tilraun fangelsismálastofnunar á að ganga upp þarf að veita nægu fjármagni í áframhaldandi verkefni þar af lútandi. Ef vel er haldið á spöðunum þá skilar þetta betri einstaklingum út í samfélagið og sparar um leið gífurlegar upphæðir.

 

(jamm)


Bloggið

  Ég er sammála þeim sem vilja að nafnleysingjarnir hverfi af blogginu. Í skjóli nafnleyndarinnar fremja sumir skefjalausar árásir á ákveðnar persónur og svívirðingar út í allt og alla. Við þurfum ekki á þessu að halda því bloggið á að vera heiðarlegt en gagnrýnið. Flestir vilja geta tjáð sig án þess að verða fyrir árásum frá einhverjum vitgrönnum nafnleysingjum. 

Annað mál sem mig langar til að nefna er að sumir bloggarar virðast apa allt beint upp eftir fréttum og skrifa nánast orð fyrir orð sem þar kemur fram. Er ekki bara hægt að lesa Moggann? Oft er þetta fólk sem oft bloggar og ég furða mig á hver tilgangurinn er?

 

(veit ekki)


Áfengisaulýsingar

Það kann að vera helber miskilningur í mér að bannað sé að auglýsa áfengi opinberlega á Íslandi.Mig mynnir að hafa heyrt mikla umfjöllun um þessi mál fyrir nokkrum misserum og skyldist þá að þetta væri alfarið bannað. Innflytjendur virðast koma sér hjá ávirðingum með að kalla sínar auglýsingar "kynningar" og nota þar blöð á við Hún og Hann sem er fríblað og er að finna á stöndum að minnstakosti í Hagkaupum. Í þessu blaði er allt morandi í áfengisauglýsingum og greinilega í kynningarstíl til að forðast Íslensk lög. Ef lögin eru óljós á þessu sviði þarf að bæta þar úr. Þegar svona myndir birtast á heilsíðu í glanstímaritum þá síast inn í huga unga fólksins að það sé ekkert eðlilegra en að neyta þessara vara og þá situr gróðinn eftir hjá innflytjandanum en sorgin hjá fjölskyldunum eftir að heimilislífið er farið úr skorðum. Ég hvet alla sem hafa með þetta að gera, að kippa þessu í liðinn. Fólk vill að Ísland sé laust við mengun og þráum við flest að allt sé hreint og fínt í kringum okkur, en áfengismengunin er ekki síður ógn við þjóðfélagið. Við höfum ekki efni á að missa hæfileikaríkt ungt fólk á vit Bakkusar og verðum að gera allt sem í okkar valdi er til að stöðva það.

Ja hér.


Bjartsýni

  Nú er best að vera á jákvæðu nótunum og vera bjartsýnn fyrir hönd okkar allra og vona það besta. Við lifum á tímum sem eru ekki eins og við vildum hafa það en Íslendigar hafa ávallt verið bjartsýnir og sagt "þetta reddast". Ég er viss um að þetta reddast líka núna miðað við hamaganginn í stjórn og stjórnarandstöðu og ekki sé talað um alla ráðgjafana og þotuliðið. Nei við þurfum ekkert að óttast því ráðamenn okkar hafa farið í fjarlæg lönd til að sannfæra heiminn um hvað við erum klár hér upp á klakanum. Það væri því fáránlegt að ætla að íslenska þjóðarbúið stefndi í þrot. Við kunnum allt og getum allt. Um það er ég sannfærður.

(úps)


Lög og reglur

  Björn Bjarnasonn kom með pistil á blogginu og viðurkenndi að Ísland væri opið fyrir glæpamönnum frá Póllandi og fleiri löndum og var það vegna laga og reglna hér á landi. Hann sagði að lögreglan vissi af mörgum sem hér væru en gæti ekkert gert vegna framsalsvitleysu hér á landi. Og ég spyr Björn! Er það ekki ykkar stjórmálamannana að bæta úr þessu rugli áður en Ísland verði miðstöð glæpamanna í heiminum?

(jáJá)


Meintur morðingi

  Það er ekki öll vitleysan eins. Maður sem tilheyrir einni grimmustu glæpaklíku í Póllandi spígsporar hér á Íslandi eins og ekkert sé sjálfsagðra. Um er kennt flóknum framsalsreglum. En hvernig í ósköpunum komst maðurinn inn í landið, fyrst hann var eftirlýstur í Póllandi. Það hrúgast hingað allskyns óþjóðalýður og á sama tíma er verið að skera niður toll og lögreglu sem þó eru aðal eftirlitsaðilarnir. Sem betur fer eru langflestir sem koma til landsins löghlýðnir borgarar. En ég hef bent á áður að ef takmarkalaus innflutningur á erlendu fólki heldur áfram þá getur illa farið eins og dæmin sanna. Það var einhver glæpaklíka sem braust inn í hús í Breiðholti og misþyrmdi íbúunum þar grimmilega. Fórnarlömbin voru af sama þjóðerni og glæpamennirnir. Við vitum að ýmislegt slæmt gerist í íslensku þjóðfélagi en hví ættum við að vera að auka áhættuna.

(Jæja)


Guð er góður

Það er frábært að mega vona á Drottinn vorn þegar allir eru að verða vitlausir í kapphlaupinu um lífshamingjuna, sem er sumum svo hverful. Það er ekki hægt annað en að vorkenna stjórnmálamönnunum okkar því þeir mega ekki misstíga sig á nokkurn hátt þá eru þeir jarðaðir um leið. Sem betur fer geta kristnir iðrast og beðið Drottinn Jesús um náð og miskunn sem hann veitir af fúsum vilja. Jú við verðum að iðrast gjörða okkar frammi fyrir honum í því fellst endurlausn sem allir þrá. Í síðari Kronikubók kafla 7, vers 14 segir. Og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrirgefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra.

Guð blessi ykkur!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband